24.3.10

Á leið til Jótlands

Jæja það er líf á meðal fjölskyldunnar.

Við hjónleysiskornin ætlum að leggja land undir fót og heimsækja Elsu og Kjartan til Horsens. Ágúst Bragi ætlar að vera í vellystingum hjá ömmu og afa á Borgarfirði á meðan. Við nýtum ferðina svo sannarlega vel því við hittum Andra og Steinunni í Köben og gistum hjá þeim eina nótt og þegar við lendum aftur á landinum ísa þá brunum við upp á Skaga og fáum að knúsast í litla kút Freyju og Ebba einn dag.
Ef að heppni ritarans verður ráðandi næstu daga mun eldgosið í Eyjafjallajökli sennilega aukast hægt og bítandi og ná hámarki á aðfaranótt laugardags, þar sem við eigum flug frá Leifstöð klukkan 7 á laugardagsmorgun og við verðum því heima að sitja. En við vonum hið besta og búumst við því versta.
Ef eitthvað markvert gerist í þessu ferðalagi mun ritarinn gera sitt besta við að bera við minnisleysi og komast þar með undan því að greina frá þeim hlutum hér :) þar sem hann er afar framtaksamur.

En það má finna myndir af Ágústi Braga á myndasíðu fjölskyldunnar. Njótið þeirra vel.

kveðja Bidda - á leið úr landi

9.2.10

Allt við það besta

Allt er við það besta hjá litlu fjölskyldunni. Yngsti meðlimurinn er samt með hor og hósta og var amma Borga hjá honum í dag svo að ekki tæki sig upp bronkítis og lungabólga allt í bland :)

Ég varð hins vegar að blogga til þess að benda mönnum á þetta
Þetta finnst mér mjög fréttnæmt og vona ég heitt og innilega að Bræðslan fái Eyrarrósina þetta árið og við fáum jafnvel að tjútta með Dorrit í sumar :)

Eftir uppfærslu tölvunnar er enn verið að vinna í myndum en aldrei að vita nema að það birtist göngumyndir af prinsinum í kvöld eða þegar líða fer að helgi.

Kveðja úr Hvamminum Fjólu - Bidda

4.1.10

Nú árið er liðið í aldanna skaut!

Heil og sæl!

Það hefur ýmislegt drifið á daga litlu fjölskyldunnar síðan hér var síðast ritað. Hæst ber þó að litli prinsinnn á heimilinu varð ársgamall þann 20. nóvember og fékk að því tilefni tvöfalda afmælisveislu. Annarsvegar með börnum og hins vegar með fullorðnum þetta var helst gert vegna plássleysis á heimilinu. Prinsinn fékk margar fallegar gjafir og var orðinn ansi kræfur í pökkunum. Síðan áttu foreldrarnir afmæli en það var nú ekki eins fréttnæmt. Jólin liðu eins og venjulega og Ágúst Bragi lét svo sannarlega til sín taka í pökkunum jafnt sínum eigin og foreldra sinna. Við hittum marga góða vini yfir jólin og þökkum við öllum góðar samverustundir.

Ágúst Bragi hefur skólagöngu sína á morgun, þriðjudag og hóf ritarinn störf í dag. Þetta verða sennilega erfiðir fyrstu dagar og snemma farið í bælið í Fjóluhvamminum. En okkur eykst vonandi kraftur þegar á líður :

Heilsist ykkur sem best þangað til næst. Það er hugsanlegt að ritarinn fari að taka sig í myndainnsetningu.

Biddan kveður - Nýju ári fylgja oft fögur fyrirheit.

24.10.09

afsakið hlé!

Við biðjumst velvirðingar á myndaleysinu hér að neðan. Það vandamál virðist nú hafa verið leyst.

Njótið vel!

23.10.09

svo sannarlega löngu komin heim úr fríinu!

Það var svo sannarlega gott að vera í bústað á vesturlandi í viku og enda dásamlega dvöl á því að eyða síðustu dögunum í góðu yfirlæti hjá Freyju og Ebba á Akranesi. Fríinu var eytt í stórum dráttum eins og myndirnar bera með sér.














Við láum í leti














lásum bækur














og höfðum það gott














Ágúst Bragi tók sín fyrstu skref sem ferfættlingur.
Hann vaknaði einn morguninn, fór fram og skreið
af stað.
Þar með var það komið :)




Freyja og Ágúst Bragi í boltaleik í stofunni
á Akranesi.


Litli með "múvin" á hreinu.



Þegar heim var komið tóku við
fjárhússmíði fyrir Nonna afa og
vígsla
á nýja pollagallanum.



Ágúst Bragi að sýna afa sínum hvernig á að fara með hamar



Daði og pabbi eitthvað að vísinda.



Ágúst Bragi að fíla sig upp í fjárhúsi.



Gaman að smakka á drullunni.


Þegar fjárhússmíðunum var lokið tóku við hreindýraveiðar
Á þriðjudegi var farið upp í Sandaskörð og
svipast um
eftir dýrum þar til komin var þoka og súld.
Þá fórum við heim og ákváðum að bíða til morguns.


Á miðvikudag var sól og blíða.
Veiðimenn og fylgdarsveinar voru kvaddir
að Hjartarstöðum í Eiðaþinghá.

Þaðan var gengið upp að Botndalsfjalli og dýrin elt.
15 tímum seinna var búið að fella fjögur dýr og
allir
komnir heim heilu húfi.



Gamli að hlaða hólkinn áður en haldið var
af stað
á eftir dýrunum



Veiðimaðurinn Daði



Beljan komin á hvolf



Vegin og mæld



Gamli að taka af henni hausinn


Það er margt líkt með skyldum!



Gamli að flá og Skúli að segja brandara



Skúli að sýna gamla takta



Síðan þessu lauk höfum við
bara verið að rokka!


Biddan kveður - updated

28.8.09

Ég fer í fríið

Nú leggur litla fjölskyldan land undir fót og ætlar að eyða dögum næstu viku í Borgarfirði síðri. Þar ætlar hún að liggja í bleyti í heitum potti og skoða undur Borgarfjarðar. Heimsækja Hvanneyri og hafa það gott.
Það er aldrei að vita nema ritari síðunnar taki einhverjar myndir og jafnvel komi þeim inn á netið. En það verður bara allt að koma í ljós.

Við heyrumst síðar

Biddan kveður-ég fer í fríið-ég fer í fríið

24.8.09

Líðan eftir atvikum

Þvottavélin mín er biluð. Hún er búin að vera á gjörgæslu í rúma viku og er lítið sem ekkert að hjara við. Kona án þvottavélar er eins og maður án salernis, bæði þurfa að vitja til stórra verka minnst þrisvar á dag annars hleðst allt upp.

Biddan kveður-á göngu um Fellabæ með þvott í pokum